top of page
Search

EKKI Í OKKAR NAFNI - Mótmælum brottvísunum

Writer's picture: Embla Guðrúnar ÁgústsdóttirEmbla Guðrúnar Ágústsdóttir

Ræða á Austurvelli 6. nóvember '22


,,Ekki gleyma að setja lyfin mín á borðið og tannkrem á tannburstan áður en þú ferð uppí rúm, því ég kem heim án aðstoðar á eftir", sagði ég við Völu eiginkonu mína á dögunum.


Að vera fötluð í ófötluðu samfélagi krefst mikillar og sífelldrar skipulagningar. Þú þarft alltaf að vera nokkrum skrefum á undan. En, það eru forréttindi að geta skipulagt. Í skipulagningunni felst öryggi, vissan um að forsendur standist. Að raunveruleiki dagsins í dag eigi líka við á morgun.


Þegar fólk er á flótta molna allar forsendur til þess að skipuleggja. Það er ömurlegt fyrir alla en nánast ógerlegt fyrir fatlað fólk.


Þegar Hussein var handtekinn, með ógeðfelldum hætti eins og lýst hefur verið, var því litla öryggi sem hann hafði öðlast á Íslandi, kippt undan honum. Þegar honum var haldið í gíslingu á hótel í Hafnarfirði og svo á Keflavíkurflugvelli hugsaði ég stöðugt um það hvort hann kæmist á klósettið og hvort hann hefði aðgang að lyfjum, ef hann þarf þau.


Þessar ömurlegu, ómannúðlegu aðstæður sköpuðust ekki í hræðilegum náttúruhamförum sem enginn hafði stjórn á. Nei, þessar aðstæður voru skapaðar, viljandi, af stjórnvöldum og lögreglunni á Íslandi!


Þessar aðstæður, þetta ógeð, var ákvörðun, tekin af fjölda fólks!


Til Íslands kemur ekki mikið af fötluðu fólki í leit að alþjóðlegri vernd.

Það helgast ekki af því að hópurinn sé fámennur - heldur er fatlað fólk yfirleitt skilið eftir þegar flýja þarf land, hvort sem það er vegna stríðs eða náttúruhamfara.


Í ósmekklegum pólitískum leikjum er fötluðu fólki oft stillt upp á móti flóttafólki. Fólk, sem alla jafna gefur lítið fyrir réttindi fatlaðs fólks, grípur þessa orðræðu á lofti og segir ,,við þurfum fyrst að hugsa um öryrkjana okkar áður en við gætum dælt peningum í fólk á flótta".


Þessi orðræða og þessi rök finnast mér ógeðsleg!


Á Íslandi eru bæði til peningar og pláss til að taka á móti fólki á flótta og líka standa vörð um réttindi fatlaðs fólks hvort sem það er á flótta eða ekki.


Höfum hátt áfram!

Höfum hátt þar til við erum stolt af samfélaginu okkar!


*Hægt er að styðja fjárhagslega með því að leggja inn á Solaris: reikningur: 0515-26-600217 Kt.: 600217-0380*


Mynd: Ólafur Ólafsson

0 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


EMBLA GUÐRÚNAR ÁGÚSTSDÓTTIR

  • Facebook
  • alt.text.label.Instagram

Images on this webpage: Eva Ágústa Aradóttir, Leifur Wilberg, Ragnar Visage or from private albums.

©2025 by Embla Guðrúnar Ágústsdóttir

bottom of page