![](https://static.wixstatic.com/media/b24bd1_b9da9c16ffec4769af2713d44d9f0ba8~mv2.jpeg/v1/fill/w_621,h_960,al_c,q_85,enc_auto/b24bd1_b9da9c16ffec4769af2713d44d9f0ba8~mv2.jpeg)
Fallin er frá ein merkasta baráttukona fyrir réttinum fatlaðs fólks - oft kölluð móðir fötlunaraktivisma - Judith Heumann.
Judith Heumann var leiðandi í fötlunaraktivisma í Bandaríkjunum síðustu 50 árin og kom víða við á sínum ferli. Hún starfaði meðal annars í Hvíta Húsinu sem ráðgjafi stjórnvalda sem og fyrir mörg baráttusamtök fatlað fólk, m.a. á sviði hugmyndafræðinnar um sjálfstætt líf.
Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að hlusta á Judith Heumann á ráðstefnu í Washington árið 2011 og hitta hana stuttlega. Fyrir mig sem 21 árs fatlaða konu sem var nýbyrjuð í aktivisma var það umbreytandi reynsla að fara til Washington, hitta Judith Heumann og taka þátt í kröfugöngu að Hvíta Húsinu.
Hugrekki Judith, festa, ákveðni og kærleikur hafði víðtæk áhrif útum allan heim og breytti aðstæðum fatlaðs fólks til frambúðar. Á Netflix er að finna heimildarmyndna Crip Camp sem segir frá réttindabaráttu fatlaðs fólks í Bandaríkjunum og þar er Judith auðvitað í aðalhlutverki. Árið 2021 kom svo út ævisaga Judith Heumann sem er stórmerkileg lesning. Bæði myndin og bókin er eitthvað sem öll ættu að kynna sér vel.
Í bókinni segir Judith frá æskuárum sínum en hún var orðin níu ára þegar hún fékk loksins að ganga í skóla. Hún deilir jafnframt reynslu sinni af því að vera fatlaður kvenaktivisti í heimi sem er hannaður af ófötluðum körlum. Í bókinni segir Judith; „Breytingar verða aldrei á þeim hraða sem við viljum að þær verði. Þær eiga sér stað yfir fjölda ára, þar sem fólk kemur saman, setur sér stefnu, deilir hvert með öðru, og togar í alla spotta sem það getur. Á endanum, eftir óbærilega langan tíma, byrjar eitthvað að gerast, og þá allt í einu, nánast eins og þruma úr heiðskýru lofti, brestur eitthvað.“
Hugur minn er hjá eiginmanni, öllum ástvinum og fjölskyldu Judith Heumann.
Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir þennan heim elsku Judith Heumann!
Comments