Erindi á málþinginu: Samfélagsleg áhrif birtingarmynda í listum í Þjóðleikhúsinu 11. okt '22
Viltu skot eða Breezer? Öskraði Tinna vinkona í eyrað á mér þar sem við stóðum við barinn inn á Kofa tómasar frænda. Nei ég vil vodka í Redbull svaraði ég. Við vorum þarna 18 ára, menntaskólavinkonur sem eyddum ófáum helgnunum á Kofanum og Qbar. Þó ég væri komin út úr skápnum á þessum tíma og ekki í stórkostlegum vandræðum með kynhneigð mína þá veigraði ég mér alltaf við að sýna þeim sem ég var skotin í áhuga. Ég vissi ekki alveg af hverju en ég gat ekki hugsað mér að stíga inn í það hlutverk að reyna við einhvern, að gerast svo óviðeigandi. Ég vildi ekki verða efni í sögur næstu daga þar sem sagt yrði „vitiði í hverju ég lenti: fötluð stelpa reyndi við mig á djamminu“ og allir tækju bakföll af hlátri.
Mörgum árum seinna sat ég og horfði á þátt af Orange is the new black, þar sem fötluð kona er gerð ógnvænleg og hálf ógeðsleg fyrir að reyna við aðra konu. Yfir mig helltist skömm og ég fór að átta mig á því hvað kvikmyndir, sjónvarpsþættir og leikhúsið áttu ótrúlega stóran þátt í því að ég gæti ekki eða mætti vera kynvera - vera fullorðin manneskja yfir höfuð.
Í gegnum tíðina hefur fatlað fólk verið afar ósýnilegt í menningunni okkar. Í þau fáu skipti sem við birtumst erum við kynlausir, barngerðir einstaklingar. Við komum yfireitt inn í senur sem skyldmenni annarra karaktera - oft í þeim tilgangi að dýpka hina. Við erum ýmist hetjur eða fórnarlömb. Ef við erum sýnd sem kynverur hefur það yfirleitt verið sett fram þannig að fatlaði karakterinn er creepy þegar hann sýnir kynferðislega hegðun eða kynferðislegur áhugi gerður að aðhlátursefni – álitinn krúttlegur en aldrei á pari við hina. Þá hafa fatlaðir karakterar yfirleitt verið leiknir af ófötluðum leikurum á sama tíma og fatlað fólk hefur ekki fengið aðgang að ýmissi listgreinafagmenntun meðal annars af því „það er engin hlutverk að fá fyrir fatlaða leikara.“
Við sjáum öll að þetta er dæmi sem gengur ekki upp.
Fatlað listafólk bæði hér á landi og erlendis hefur auðvitað andæft þessari stöðu og staðalmyndum og búið til algjörlega frábæra list. En það er á brattan að sækja hvað varðar aðgengi að menntun og starfstækifærum í listaheiminum.
Undanfarin áratug hef ég starfað, samhliða öðru, við Háskóla Íslands ásamt þónokkru öðru fötluðu fólki. Ég hóf störf þar 18 ára gömul sem stundakennari, það er almennt ekki vaninn en það var nú samt þannig. Ég myndi lýsa háskólanum sem frekar formfastri, kassalaga stofnun sem ég þó starfa við. Leikhúsinu myndi ég hins vegar ekki lýsa þannig. Í leikhúsinu er allt hægt, fólk getur meira að segja flogið hér inni, ég hef séð það.
Það er því algjörlega fáranlegt að ekki sé hægt að finna leið til að fatlað fólk geti starfað hér on a regular basis.
Þegar við sjáum fötlun birta í menningunni sjáum við hana alla jafna út frá augum og sjónarhorni ófatlaðs fólks. Margir svara og segja að leiklistin snúist einmitt um að túlka ólíkt fólk.... Vandamálið er ekki túlkunin - vandamálið er að við fáum nánast einungis að sjá veruleika okkar sem erum fötluð útfrá þessu eina og sama ófatlaða sjónarhorni.
Við sem konur vitum hvað margt breyttist þegar það voru ekki lengur bara karlar sem sögðu söguna. Karlar geta algjörlega 100% sagt sögur og túlkað líf kvenna. En við vitum að þegar þeir einir segja söguna, alltaf, þá verður myndin skökk. Í nýútkominni sjálfsævisögu leikkonunnar Violu Davis lýsir hún því hvernig samtvinnun sexisma og rasisma hefur litað hennar starfsferil. Hvernig hlutverk svörtu konunnar eru alltaf þau sömu: þernan, fíkillinn eða besta vinkona hvítrar aðalpersónu.
Við munum líka flest öll eftir því þegar „hommavinurinn“ eins og hann birtist til dæmis í Sex and the City var nánast eina myndin sem við sáum af hinsegin fólk í menningunni. Við sjáum núna miklar breytingar á birtingamyndum hinsegin fólks í menningunni með aukinni aðkomu hinsegin listafólks á öllum sviðum.
Um þessar mundir er sýning hér í kjallara þessa húss, Góðan daginn faggi. Mögnuð sýning sem fjallar meðal annars um áhrif staðalmynda á borð við hommavinin á líf hinsegin fólks. Leikritið er samið og sett á svið af hópi hinsegin listafólks. Við vitum alveg að okkar færustu gagnkynhneigðu leikstjórar og leikarar hefðu aldrei getað búið til og flutt Góðan daginn faggi. Alveg sama þótt þau ættu samkynhneigða ættingja eða hefðu farið á ráðstefnur og fundi hjá Samtökunum 78. Góðan daginn faggi kjarnast í djúpstæðri reynslu, m.a. af upplifun af skömm yfir eigin tilvist. En það sem Góðan daginn faggi gerir líka er að sýna gagnkynhneigt fólk út frá upplifun hinsegin fólks.
Mig dreymir auðvitað um að sjá fatlað fólk í fjölbreyttum hlutverkum á sviði, baksviðs, sem handritshöfunda og leikstjóra. Og við höfum hér í dag á þessu sviði einmitt fatlað listafólk sem hefur menntun og/eða reynslu í þessu öllu. Það verður gaman að sjá fatlað fólk setja mark sitt á sögufræg verk og að Njáll eða Lína langsokkur verði fötluð af því það vildi bara svo til að fatlaður leikari fari með hlutverkið.
Ég hlakka líka til að sjá upplifun fatlaðs fólks í auknum mæli setta á svið þar sem við fáum að vera flókin og margslungin. Þar sem við verðum mannleg, breisk, höfum fjölbreytt félagsleg hlutverk t.d. sem foreldrar, lögfræðingar, kynverur, valdamikill og valdbeitt. Þar sem við sjáum öráreitnina og fordómana gegn fötluðu fólki en við sjáum líka afleiðingarnar og hvernig fatlað fólk lifir og andæfir fordómunum. Þar sem fatlað fólk er sexý ekki þrátt fyrir fötlun sína heldur þrátt fyrir barngeringuna. Eða fatlað fólk sé bara sexý, punktur. Þá fáum við líka enn annað sjónarhorn inn í leikhúsið, við fáum að sjá upplifun fatlaðs fólks af ófötluðu fólki.... Og það get ég sagt ykkur verður eitthvað leikhús.
Comments